Þakklætisvottur Þýskalandskeisara fundinn

16
Jan

Þakklætisvottur Þýskalandskeisara fundinn

1/16/2019

Í heimildum um björgun og hjúkrun skipbrotsmannanna af þýska togaranum Friedrich Albert sem kvikmyndahandritið Svartur sandur byggir á kemur fram að Wilhelm II keisari Þýskalands hafi veitt þeim Bjarna Jenssyni lækni, Þorgrími Þórðarsyni lækni, séra Magnúsi Bjarnasyni og Guðlaugi Guðmundssyni sýslumanni rauðu arnarorðuna sem viðurkenningu og þakklætisvott þýsku þjóðarinnar fyrir björgun og aðhlynningu skipbrotsmannanna. Guðríður Jónsdóttir ljósmóðir og mágkona Bjarna læknis annaðist að mestu hjúkrun mannanna og þá sérstaklega þeirra fimm sem voru aflimaðir. Fékk hún að launum demantsnælu með þýska skjaldamerkinu. Einari Magnúsi sem annast ritun handritsins lék forvitni á að vita hvar þessi næla og orðurnar væru og bar leitin loks árangur í dag.  

Finnbogi Helgason afkomandi Bjarna Jenssonar og frændi Guðríðar Jónsdóttur ljósmóður

Í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember 2018 auglýsti Einar Magnús eftir upplýsingum um næluna sem Guðríði var veitt og leið ekki á löngu uns Jens Bjarnason, afkomandi Bjarna Jenssonar læknis og frændi Guðríðar, hafði samband við Einar Magnús og  benti honum á að nælan væri líklega í vörslu Þjóðminjasafnsins. Eftir töluverða leit í fórum Þjóðminjasafnsins  kom nælan loks í leitirnar nú fyrir skömmu ásamt orðunni sem Bjarni hafði veitt viðtöku.  Þegar fyrst var haft samband við Þjóðminjasafnið fundust munirnir ekki og var ástæðan sú að munirnir höfðu fyrst verið afhentir Læknasafninu en það safn er nú á hrakhólum og ekki langt síðan að munum þess var komið í vörslu Þjóðminjasafnsins. Ekki hafði enn verið búið að skrásetja þessa muni í vörslu safnsins. Með dyggri aðstoð Freyju Ómarsdóttur sérfræðingi í munasafni Þjóðminjasafnsins fundust nælan og orðan nú fyrir skömmu og fékk Einar Magnús og Finnbogi Helgason afkomandi Bjarna Jenssonar læknis og frændi Guðríðar loks að sjá þessa merku muni í dag. Sigríður Jónsdóttir eiginkona Bjarna Jenssonar var systir Guðríðar ljósmóður en að margra mati verðskuldaði Sigríður það einnig að fá viðurkenningu því skörulega breytti hún heimili þeirra hjóna á Breiðabólsstað í sjúkrahús á skömmum tíma. Hún sótthreinsaði allt og annaðist allt heimilishald af svo mikilli ósérhlífni og dugnaði að henni er mest þakkað sú fullkomna smitgát sem gætt var við aðgerðirnar og kom þannig í veg fyrir að upp kæmi smit á sárum mannanna.

„Þetta færir mann nær sögunni sem átti sér stað fyrir 116 árum síðan. Þetta er í fyrsta skipti sem maður fær séð og snert eitthvað sem fór um hendur þessa fólks og þetta veitir manni enn sterkari tilfinningu fyrir sögunni og raunveruleika hennar. Þetta hefur ómetanlegt tilfinningalegt gildi þótt þetta hafi í sjálfu sér engin áhrif á söguna eða handrit hennar," sagði Einar Magnús.

Orðan sem Bjarni Jensson læknir fékk frá Wilhelm II keisara Þýskalands og nælan hægra megin sem Guðríður Jónsdóttir ljósmóðir fékk.

Finnbogi segir að sagan af þessum afrekum hafi lifað með fjölskyldunni alla tíð. Það sé því  ánægjulegt að sjá og vita að verið sé að leggja í vinnu við að varðveita þessa merku sögu.

BIrt þann:

16/1/2019

í flokknum

Handritaskrif